Choose lang
  • Denmark
  • Norway
  • Finland
  • Iceland
  • Sweden
  • Great Britain

Þema: Umburðarlyndi

Í stuttmyndunum fimm er fjallað um mismunandi aðstæður þar sem reynir á umburðarlyndi fólks. Að því búnu verður auðvelt að vinna áfram með þemað innan bekkjarins.

Latneska orðið fyrir umburðarlyndi er tolerantia sem þýðir «að þola» eða «að sætta sig við». Þess vegna má skilgreina orðið umburðarlyndi í félagslegu samhengi sem það að sætta sig við skoðanir, afstöðu og aðgerðir sem við erum ósammála eða angra okkur á einhvern hátt.

Umburðarlyndi þýðir að við sættum okkur við rétt annarra til að hafa aðra afstöðu en við og/eða meirihlutinn höfum og að við sættum okkur við rétt fólks til að lifa og starfa í samræmi við skoðanir sínar. Umburðarlyndi gerir til okkar kröfur, við þurfum að leggja eitthvað af mörkum til þess að sætta okkur við rétt annarra til að tjá sig og hegða sér í andstöðu við okkar eigin viðmið og skoðanir.

En okkur ber þó ekki skylda til þess að sætta okkur við allt. Við höfum leyfi til þess að vera ósammála skoðunum og vera mótfallin verkum. Við sýnum ekki umburðarlyndi gagnvart því sem sagt er eða gert heldur rétti manna til þess að tjá sig.

Almennar spurningar sem hægt er að spyrja í tengslum við umburðarlyndi sem þema:

· Hver á eiginlega heima í því samfélagi sem við höfum mótað?
· Hvernig líður fólki þegar það er hunsað?
· Hvaða skipulag ræður ríkjum í samfélagi okkar?

Umburðarlyndi snýst um það að geta dregið eigin fordóma og mat í efa í samskiptum okkar við annað fólk. Hvað gerist þegar einstaklingurinn horfist í augu við það ofbeldi og deilur sem tröllríða heimsbyggðinni? Hvernig reiðir hugmyndum um jafnræði allra af í þeim veruleika sem við búum við?

Í því efni sem hér fer á eftir má sjá ýmsan samanburð á tungumálum Norðurlandaþjóðanna. Þar er líka að finna fjölbreytilegar forsendur til þess að endurspegla og fjalla um afstöðu nemenda til þess að vera utangarðs og samþættingar, kynhneigð og jafnrétti, einelti og átök, tungumál og stéttaskiptingu, völd og fjölmiðla. Þegar nemendum er gefinn kostur á að hugsa málið og íhuga í sameiningu á grundvelli sameiginlegar reynslu af kvikmyndunum koma þeir kannski sjálfir auga á möguleika sína á að hafa áhrif á afstöðu sína og annarra og breyta henni.